Samkomulag um takmörkun kjarnorkuvopna

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Dmitry Medvedev Rússlandsforseti samþykktu drög að nýjan sáttmála um takmörkun kjarnorkuvopna á þriggja tíma fundi sínum í Mosku í Rússlandi í dag. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Samkvæmt viljayfirlýsingu, sem þeir undirrituðu, er stefnt að því að fækka kjarnaoddum ríkjanna þannig að fjöldi þeirra fari niður fyrir 1.700 á næstu sjö árum. Stefnt er að því að sáttmáli, þar sem nánar verði kveðið á um þetta, mun leysa af hólmi Start 1 sáttmála ríkjanna frá árinu 1991 sem rennur út í desember á þessu ári. 

„Innan sjö ára frá gildistöku samningsins og eftir það skal hámarksfjöldi burðarvopna vera á bilinu 500 til 1.100 og fjöldi kjarnaodda, tengdum þeim, vera á bilinu 1.500-1.675," segir í yfirlýsingunni.

Fram kemur í yfirlýsingu Hvíta hússins í Washington að ákvæði um víðtækt eftirlit verði í sáttmálanum. Þá segir að sáttmálinn muni auka öryggi bæði Bandaríkjanna og Rússlands.

Eftir fundinn sagði Obama að forsetarnir væru báðir staðráðnir í að erfið samskipti ríkjanna tilheyri fortíðinni og að þau séu nú að baki.  Ekki náðist þó samkomulag um umdeild áform Bandaríkjamanna um uppsetningu eldflaugavarnarkerfis á fundi forsetanna.

Á fundinum náðu forsetarnir hins vegar samkomulagi um að taka upp hernaðarsamvinnu að nýju og að Bandaríkjaher mætti fljúga um lofthelgi Rússlands á leið til Afganistans. Þá samþykktu þeir að auka samvinnu í orkumálum og í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi og fíkniefnaviðskiptum.   

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Dmitry Medvedev Rússlandsforseti ræðast við fyrir …
Barack Obama Bandaríkjaforseti og Dmitry Medvedev Rússlandsforseti ræðast við fyrir fund sinn í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka