Fjórtán dæmdir í stutt fangelsi

Fjórtán manns hafa verið dæmdir í stutta fangelsisvist í Hollandi vegna þátttöku í mótmælum við kínverska sendiráðið þar í landi. Sendiráðið var grýtt til að mótmæla óeirðum í Xinjiang héraði í Kína.

Mótmælendurnir fjórtán voru dæmdir í fangelsi frá einni viku til tíu daga, en saksóknari sóttist eftir tveggja vikna fangelsi vegna ofbeldis gegn fólki og eignum.

Einn sakborningur kvaðst hafa kastaðmúrsteini í sendiráðið til að mótmæla „blóðbaðinu“ í Urumqi, höfuðborg norðvestlæga héraðsins, þar sem minnst 156 manns hafa dáið í átökunum sem brutust út milli Úígúra og Han kínverja á sunnudag.

Annar sakborningur kallaði „frelsið Úígurana“  þegar hann yfirgaf réttarsalinn.

Alls voru 142 handteknir á mánudaginn vegna mótmælanna sem Félag Úígúra Austur-Túrkmenistan í Hollandi boðaði. Steinum var kastað, sem fyrr segir, og nokkrir gluggar brotnir.

Mótmælendur veifuðu flöggum og borðum sem á var letrað „Kínverjar farið aftur til Kína“ og kölluðu „Hryðjuverka-Kína“ á meðan þeir voru færðir burtu í lögreglubílum.

Talsmaður réttarins sagði við fréttastofu AFP á miðvikudag að þrír í viðbót myndu mæta fyrir rétt á næstu dögum, og verið væri að rannsaka mál fimmtán annarra mótmælenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert