Lést í nautahlaupinu í Pamplona

Spænskur karlmaður á þrítugsaldri lést í nautahlaupinu í borginni Pamplona í dag þegar naut stangaði hann í hálsinn, hjartað og lungun fyrir framan þúsundir ferðamanna sem fylgdust með nautahlaupinu sem fer fram ár hvert í spænsku borginni. Maðurinn, Daniel Jimeno Romero, er sá fimmtándi sem lætur lífið í hlaupinu en slysið í dag er það fyrsta mannskæða frá árinu 2005.

Aðrir þátttakendur áttu fótum sínum fjör að launa í nautahlaupinu á San Fermin hátíðinni þar sem áhorfendur flykktust að sem og fjölmiðlafólk til þess að fylgjast með  því er nautið stangaði Romero til bana.

Romero var fluttur lífshættulega slasaður á Navarro sjúkrahúsið en að sögn lækna var ekkert hægt að gera til að bjarga honum. 

Orðrómur var um að Breti hefði látist í nautahlaupinu í morgun en tvítugur Breti slasaðist sem og tveir aðrir þátttakendur, annar frá Argentínu en hinn spænskur. Enginn þeirra er í lífshættu.

Frá San Fermin hátíðinni í Pamplona á Spáni
Frá San Fermin hátíðinni í Pamplona á Spáni Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert