Illvígt naut stakk mann til bana í árlega nautahlaupinu í Pamplona á Spáni í dag. Maðurinn var særður banasári á hálsi. Varað er við myndunum sem að fylgja með þessari frétt.
Hinn látni var 27 ára gamall Spánverji.
Dauðsfallið var það fyrsta á hinum árlega atburði í Pamplona í 14 ár en nautið sem særði manninn helsári var um 1.000 kíló á þyngd.
Þá liggur 61 árs gamall Bandaríkjamaður sem var stunginn af nauti á gjörgæslu.
Níu til viðbótar slösuðust í atinu sem gengur út á að láta nautin hlaupa sértilgreinda leið.
Það sem hins vegar gerðist í dag var að eitt nautið skar sig úr hópnum og réðist óttaslegið á nærstadda.
Hundruð manna sýna árlega hugrekki sitt í hlaupinu sem var gert ódauðlegt í skáldsögu Ernest Hemingway, The Sun Also Rises.
Alls hafa 15 beðið bana í hlaupinu frá 1910, þar af tveir árin 1947 og 1980.