Barack Obama, forseti Bandaríkjanna heimsótti ásamt fjölskyldu sinni, virki í Ghana í dag þar sem þrælakaupmennska blómstraði áður fyrr.
Obama-fjölskyldan heimsótti ásamt leiðsögumanni Cape Coast kastalann, en hann var fyrrum ein af helstu sölustöðum þar sem þrælar voru sendir í ánauð frá Afríku til Ameríku.
Obama er sjálfur sonur afrísks innflytjenda í Bandaríkjunum og forfeður konu hans Michelle, voru afrískir þrælar. Dætur þeirra, Malia og Sasha voru með þeim í heimsókninni.
„Þetta er augljóslega hjartnæm upplifun, og hjartnæm stund," sagði Obama. Hann sagði að ganga um dýflissur þar sem þrælum var haldið föngnum „minnti á að stundum getum við umborið og litið framhjá mikilli illsku, jafnvel þótt við teljum okkur vera að breyta rétt," sagði forsetinn. „Ég held að það hafi sérstaklega verið hollt fyrir Malia og Sasha, sem fá að alast upp við mikla gæfu, að vera minntar á að sagan geti tekið á sig mjög grimmdarlega mynd. Vonandi hafa þær með heimsókninni fundið fyrir skyldu til að berjast gegn kúgun og grimmd."
Hann sagði staðinn kalla annars vegar fram djúpstæða sorg en á hinn bóginn hefði hann markað upphaf ferðar fjöldamargra Afríku-ameríkana.
Kastalinn er um 160 kílómetra vestan við höfuðborg Gana, Accra og var byggður á 17. öld, en upphaflega var honum ætlað að vera útskipunarstaður fyrir gull og timbur, áður en hann breyttist í þrælavirki.
Obama bætti því við að hann væri glaður yfir því að geta fagnað með fólkinu í Gana yfir „þeim sérstaka árangri sem það hefði náð...við að útrýma þrælahaldi og að lokum færa allri þjóðinni grundvallar mannréttindi." Hann sagði það vekja vonir. „Það minnir okkur á að jafn hræðileg og sagan getur verið, þá er einnig mögulegt að komast yfir erfiðleikana."