Fyrirhugað er að aflétta hömlum við 100% húsnæðislánum í Bretlandi. Rökin fyrir skrefinu eru þau að slík lán létti undir með nýjum kaupendum á erfiðum tímum. Teikn eru á lofti um að fasteignamarkaðurinn á Bretlandi sé að taka við sér og er bann við slíkum lánum talið hafa neikvæð áhrif á markaðinn.
Fjallað er um málið á vef breska dagblaðsins The Guardian en þar segir að Gordon Brown forsætisráðherra hafi fyrr á árinu viljað takmarka áhættusöm húsnæðislán þar sem innborgun var minna en tíundi hluti af verðmæti eignar.
Nú sé sú skoðun hins vegar að verða útbreidd í röðum breskra þingmanna að bann við slíkum lánum kunni að hafa neikvæð áhrif.
Ráðgjafar telji bannið munu geta komið í veg fyrir að ungir kaupendur ráðist í fasteignakaup.
Segir á vef blaðsins að þrátt fyrir verðfall á fasteignamarkaði reynist mörgum það erfitt að standa undir háum lánum, enda sé verðið enn hátt í hlutfalli við tekjur.