Norsk heilbrigðisyfirvöld hyggjast bólusetja alla norsku þjóðina gegn svínainflúensu af völdum H1N1 veirunnar. Þetta staðfestir Karin Rønning, yfirlæknir við smitsjúkdómadeild norsku lýðheilsustöðvarinnar.
Í frétt Aftenposten segir Rønning að búið sé að gera samning við fyrirtæki um kaup á 9,4 milljónum skömmtum af bóluefni, sem nægir til að bólusetja alla í Noregi með tveimur skömmtum, eins og talið er nauðsynlegt að gera. Samningurinn gerir ráð fyrir að skammtarnir verði afhentir seint í haust og í vetur.
Lyfjaframleiðandinn GlaxoSmithKline hefur þegar hafi framleiðslu bóluefnisins sem verður væntanlega tilbúið til notkunar í Noregi um mánaðarmótin nóvember/desember.
Hins vegar óttast menn að faraldurinn verði þá þegar kominn á fullt skrið í landinu. Þegar fyrstu bóluefnaskammtarnir verða tilbúnir í september þarf að prófa efnið á tilraunastofu. Búist er við að niðurstöður þeirra tilrauna liggi fyrir í nóvember og að samþykki fyrir notkun efnisins liggi fyrir um mánaðarmótin nóvember/desember.
Rønning segir að hafist verið handa við bólusetningar um leið og bóluefnið er tilbúið, og vonast til að ferlið gangi hraðar fyrir sig þannig að hægt verði að byrja strax í október. Hún óttast að svínaflensutilfellum muni fjölga hratt eftir september. „Við teljum að það komi fleiri afbrigði svínaflensunnar, líkt og vaninn er með inflúensur. T.d. er núna venjubundinn inflúensutími í Ástralíu og þar herja núna fjórar mismunandi inflúensuveirur á fólk."
Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa einnig byrjað undirbúning fyrir bólusetningu á allri bresku þjóðinni gegn H1N1 veirunni. Vitnað er í frétt í The Guardian þar sem segir að mögulegt sé að 20 milljónir manna verði búnir að fá bóluefnið innan árs. Bresk stjórnvöld tóku ákvörðun um að bólusetja alla eftir að fullfrískur karlmaður í Essex lést af völdum veirunnar. Skv. The Guardian getur bóluefnið verið tilbúið innan fimm daga og hafa Bretar pantað 90 milljón bóluefnisskammta.