Tveir alvarlega slasaðir eftir nautahlaup

Tíu manns hafa slasast, þar af tveir alvarlega, í nautahlaupinu í Pamplona á Spáni í dag, sunnudag. Aðeins tveir dagar eru síðan 27 ára gamall maður var stunginn til bana af nauti á hátíðinni.

Þeir tveir sem særðust alvarlega eru spænskir karlmenn, sem meiddust á hálsi, brjósti og rasskinnum eftir að hafa verið stungnir. Talsmaður hátíðarinnar sagði lækna vera vissa um að lífum þeirra yrði bjargað að lokinni aðgerð.

Þá var 21 árs Englendingur færður á sjúkrahús vegna meiðsla í baki sem hann hlaut af hálfu eins varðmannanna, en þeir eru vopnaðir stöngum til þess að koma í veg fyrir að fólk nálgist nautin um of.

Hlaupið í dag var það sjötta í röðinni á hátíðinni í ár. Athöfnin felst í því að hópi nauta er sleppt og þau látin hlaupa yfir 800 metra völl að nautahringnum.

Flest slys á hátíðinni verða vegna fólks sem dettur við að reyna að hlaupa undan nautunum á hellulögðum götum Pamplona.

Nautahlaupið í Pamplona.
Nautahlaupið í Pamplona. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert