Bandaríska leyniþjónustan (CIA) leyndi fyrir Bandaríkjaþingi upplýsingum um leynilegt verkefni í hryðjuverkastríðinu, að því er dagblaðið New York Times hefur eftir Leon E. Panetta, núverandi yfirmanni CIA. Panetta hafnaði á sínum tíma þeirri fullyrðingu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, að þingið hefði ekki haft neina vitneskju um vatnspyntingar í hryðjuverkastríðinu.
Segir í blaðinu að ákvörðunin um að leyna verkefninu hafi verið tekin með blessun Dicks Cheney, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna í tíð George W. Bush forseta.
Blaðið hefur þetta raunar ekki beint eftir Panetta heldur heimildarmönnum sem hafa upplýsingar um vitnisburð hans fyrir þingnefndum sem fara með leyniþjónustumál.
Panetta fyrirskipaði að verkefninu skyldi hætt þegar hann frétti af því í júní en það fór aldrei í fullan gang þótt því væri ýtt úr vör skömmu eftir hryðjuverkaárásirnar í september 2001.
Cheney hefur ekki tjáð sig um málið en fyrr um helgina var fullyrt í nýrri skýrslu að skrifstofa hans hefði gegnt lykilhlutverki í að halda hlerunum sem fóru fram án heimildar leyndum, fyrir öðrum en mönnum í innsta hring.