Lyf sem stýrir úrvinnslu glúkósa í líkamanum minnkaði líkamsþyngd tilraunamúsa um fjórðung og fitumassa um 42% á aðeins einni viku. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsókna sem voru birtar í tímaritinu Nature Chemical Biology í dag.
Meðferð byggð á lyfinu er talin munu geta opnað nýjar leiðir fyrir fólk sem þjáist af offitu og sykursýki 2. Frekari vinnu og rannsókna er þó krafist áður en hægt er að nota lyfið á mannfólki að sögn rannsakendanna, en fyrir þeim fer Richard DiMarchi við Indiana University.