Herða reglur vegna flóðs hælisleitenda

Kanadamenn hafa hert til muna reglur um vegabréfsáritanir sem koma frá Mexíkó og Tékklandi en umsóknir borgara þessara tveggja landa um hælisvist í Kanada hafa margfaldast að undanförnu. Jason Kenney, ráðherra innflytjendamála í Kanada segir mikinn vafa leika á lögmæti stórs hluta umsóknanna.

Frá árinu 2007, þegar vegabréfsáritunum var létt, hafa þrjú þúsund tékkneskir ríkisborgarar sótt um hælisvist í Kanada. Til samanburðar voru umsóknir tékkneskra ríkisborgara um hælisvist í Kanada aðeins 6 árið 2006. Þá sóttu 9.400 mexíkóskir ríkisborgarar um hælisvist í Kanada í fyrra, eða nærri þrefalt fleiri en árið 2005.

Yfirvöld í Tékklandi hafa brugðist ókvæða við þessum hertu reglum og hafa kallað sendiherra sinn í Kanada heim. Þá hyggjast Tékkar koma á vegabréfsáritunum vegna heimsókna kanadískra diplómata til landsins. Tékkar hyggjast leita stuðnings annarra Evrópusambandsþjóða vegna aðgerða sinna gegn Kanada.

Jan Fischer, forsætisráðherra Tékklands segir ákvörðun Kanadamanna einhliða og óvinveitta. Mexíkósk yfirvöld eru hófstilltari í viðbrögðum sínum og harma ákvörðun Kanada.

Jason Kenney, ráðherra innflytjendamála í Kanada segir hertum vegabréfsreglum ætlað að stemma stigu við vaxandi sókn um hælisvist frá þessum tveimur löndum.

Rúmlega helmingur tékkneskra hælisleitenda fylgir kröfum sínum ekki eftir eða fellur frá umsókn um hælisvist í Kanada áður en kemur að endanlegri afgreiðslu. Þá voru aðeins um 11% umsókna Mexíkóa um hælisvist samþykktar.

„Fyrir utan hvað þessi vöxtur vafasamra umsókna um hælisvist seinkar málsmeðferð og eykur kostnað þá grefur þetta undan kerfinu og dregur úr möguleikum okkar á að veita þeim hæli sem raunverulega þurfa á því að halda,“ Jason Kenney, ráðherra innflytjendamála í Kanada.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hvatt stjórnvöld í Kanada til að draga til baka ákvörðun sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert