Mótmæla opnun bílastæðahúss á Sabbatdegi

Heittrúaðir gyðingar mótmæla truflun á friðhelgi hvíldardagsins.
Heittrúaðir gyðingar mótmæla truflun á friðhelgi hvíldardagsins. Reuters

Átök brutust út milli ísraelskra lögreglumanna og heittrúaðra gyðinga þegar þeir síðarnefndu mótmæltu opnun bílastæðahúss nærri gamla borgarhluta Jerúsalem á hvíldardegi gyðinga.

Að sögn lögreglu kveiktu hundruð heittrúaðra gyðinga í ruslafötum og hentu grjóti í lögreglubíla. Umferð raskaðist verulega en engin slys eða handtökur hafa orðið enn sem komið er.

Hinir heittrúuðu hafa mótmælt ákvörðun borgarstjórans Nir Barkat að opna bílastæðahúsið undir ráðhúsinu á Sabbatdeginum, sem er vikulega frá sólsetri föstudags til sólseturs laugardags. Gyðingarnir hafa áhyggjur af því að opnunin muni enn draga úr heilagleika hvíldardagsins.

Ráðhúsið er mjög nálægt borgarveggjum gömlu Jerúsalem, sem dregur að sér mikinn fjölda ferðamanna.

Heittrúaðir gyðingar eru um einn þriðjii af 750 þúsund íbúum Jerúsalem. Þeir vinna hvorki né keyra á Sabbatdögum og hafa ósjaldan grýtt bíla sem aka í gegnum hverfi þeirra á þeim dögum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert