Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur lýst yfir efasemdum gagnvart áætlunum um að bólusetja milljónir manna gegn svínaflensunni enda verði bóluefni ekki til fyrr en eftir nokkra mánuði.
Margaret Chan, yfirmaður stofnunarinnar, segir bóluefnið enn í þróun. „Það ætti að verða til eftir nokkra mánuði en það að eiga bóluefni er ekki það sama og að eiga bóluefni sem reynist svo óhætt að nota. Öll rannsóknargögn verða ekki tilbúin fyrr en eftir 2-3 mánuði.“
Mörg lönd hafa viljað byrja að bólusetja þá sem eru í mestri smithættu strax í næsta mánuði en óvíst er nú um þær áætlanir í kjölfar orða Chan.
Yfirvöld í Þýskalandi hafa lýst yfir áhuga á að panta um 25 milljónir skammta sem myndu nægja til að bólusetja þriðjung þjóðarinnar. Ástralir hafa þegar pantað 21 milljón skammta sem nægir til að bólusetja alla þjóðina.
Um 429 hafa nú látist af völdum svínaflensunnar um víða veröld.