Rússneski mannréttindafrömuðurinn Natalia Estemirova var myrt í Tétsníu í morgun. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Samstarfsfólk hennar segir hana hafa verið stöðvaða á götu og neydda upp í sendiferðabíl. Lík hennar fannst í nágrannahéraðinu Ingushetiu nokkrum klukkustundum síðar en hún hafði verið skotin tvívegis í höfuðið.
Estemirova vann að rannsókn mannréttindabrota í Tétsníu á vegum samtakanna Memorial Group er hún var myrt. Hún vann áður með blaðakonunni Önnu Politkovskaya, sem var skotin til bana árið 2006, og Stanislav Markelov, sem var drepinn í janúar á þessu ári.
Estemirova hlaut verðlaun Önnu Politkovskayu árið 2007 en auk þess hafði hún hlotið sænskar og evrópskar viðurkenningar fyrir störf sín að mannréttindamálum.