Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, mun styðja Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, í embætti forseta Evrópusambandsins bjóði hann sig fram til þess. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
„Ákveði Tony Blair að gefa komst á sér sem forseta ESB mun breska ríkisstjórnin að sjálfstöðu styðja hann,” sagði talsmaður Brown í dag eftir að Evrópumálaráðherra bresku stjórnarinnar gaf í skyn að Blair hygðist sækjast eftir embættinu.
„Það er skoðun forsætisráðherrans að Tony Blair sé frambærilegur frambjóðandi í hvaða mikilvæga embætti á alþjóðavettvangi sem er."
William Hague, talsmaður bresku stjórnarandstöðunnar í utanríkismálum, sagðist hins vegar telja yfirlýsingu talsmanns Brown til marks um veika stöðu forsætisráðherrans. Þá sagði hann að best væri að halda Blair sem lengst frá umræddu embætti.
„Það sýnir bara það tak sem Mandelson lávarður hefur á Gordon Brown að hann skuli vera neyddur til að styðja sinn helsta keppinaut,” sagði Hague. „Tilnefning Tony Blair í embætti forseta Evrópu væri fullkomin birtingarmynd staðnaðrar og hrokafullrar afstöðu þessarar stjórnar Verkamannaflokksins sem ber enga virðingu fyrir lýðræðinu.”
Blair hefur ekki staðfest að hann hafi hug á að sækjast eftir stöðunni og talsmaður hans segir umræður um slíkt óraunhæfar uns Lissabonsáttmálinn, þar sem kveðið er á um stofnun embættisins, hafi verið samþykktur í öllum aðildarríkjum ESB. „Eins og við höfum sagt hvað eftir annað, þá er ekki hægt að bjóða sig fram til embættis sem er í raun ekki til,” sagði talsmaður Blair í dag.