Júlímánuður er orðinn sá blóðugasti fyrir erlendar hersveitir í stríðinu í Afganistan allt frá því það hófst fyrir átta árum síðan. Talibanar hafa þróað sprengjutækni sína betur og erlendu hersveitirnar eiga erfitt með að fóta sig í harkalegu veðurfarinu.
47 erlendir hermenn hafa farist í júlímánuði. Blóðugustu mánuðirnir voru áður júní og ágúst 2008 þegar 46 hermenn létu lífið. Bandaríkjamenn og Bretar hafa að undanförnu staðið fyrir stórum árásum á búðir Talibana í suðurhluta landsins sem hersveitir hafa ekki hætt sér inn á áður.
Bandaríski herinn hefur sagt mótstöðuna vera litla en breski herinn, hvers búnaðarskortur hefur valdið miklum deilum í heimalandinu, hefur misst marga menn að undanförnu.
Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2009 hafa 203 hermenn fallið í valinn í stríðinu í Afganistan. Allt árið í fyrra fórust 294 hermenn og árið 2006 voru þeir 191.
Michael Mullen aðmíráll, æðsti hershöfðingi bandaríska hersins, segir Talibana hafa styrkst umtalsvert síðustu ár. „Þeir eru orðnir ofbeldisfyllri og grimmari. Skipulagning þeirra er jafnframt betri og því erfiðara að berjast við þá.“
Flestir hermennirnir farast í sprengingum, sem eru helsta vopn skæruliða gegn hersveitunum. Bretar hafa misst 15 hermenn í þessum mánuði. Þeir stýra Pardusklóar-aðgerðinni í Helmand-héraði í suðurhluta Afganistan og þar eru um 3.000 breskir hermenn. Í héraðinu er miðstöð Talibana í landinu og þar eru bardagar tíðir. Aðstæður þar þykja afar erfiðar og á sumrin fer hitastigið í 46 gráður.