Fréttaflutningur af H1N1 gagnrýndur

Flensulyfið Tamiflu er enn sem komið er talið besta vörnin …
Flensulyfið Tamiflu er enn sem komið er talið besta vörnin gegn svínaflensu Reuters

Breskir læknar hafa gagnrýnt yfirvöld þar í landi fyrir að hafa ekki gert nóg til að róa fólk vegna svínaflensufaraldursins (H1N1) sem nú geisar í landinu. 29 hafa nú látið lífið af völdum hans í Bretlandi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Dr Laurence Buckman, formaður bresku læknasamtakanna segir almenning stjarfan af hræðslu og það að ástæðulausu. „Vandinn er sá að við höfum 60 milljónir manna sem eru stjarfar af hræðslu. Hættan er vissulega fyrir hendi, en í flestum tilfellum er ótti fólks mun meiri en hættan,” segir hann. „Dánartíðni er svipuð og í árstíðarbundinni flensu en hér er hún þó hærri í yngri aldurshópunum. Í flestum tilfellum er um andstyggileg en þó fremur skaðlaus veikindi að ræða. Upplýsingaflæðið er hins vegar svo mikið að það veldur fólki áhyggjum." 

Buckman segist þó ekki telja að yfirvöld eigi að liggja á upplýsingum um dauðsföll af völdum veikinnar. Hann telji hins vegar að leggja megi auka áherslu á það að í flestum tilfellum séu veikindin skaðlaus.  Einnig segir hann umfjöllun fjölmiðla hafa stuðlað að óþarflega miklum ótta meðal almennings. „Fyrirsagnir sumra dagblaða hafa ekki hjálpað til,” segir hann. 

Talsmaður breska heilbrigðisráðuneytisins segir yfirvöld alla tíð hafa lagt áherslu á að koma því á framfæri við fólk að veikin sé í flestum tilfellum skaðlaus: „Því hefur ítrekað verið lýst yfir að í flestum tilfellum sé um skaðlaus veikindi að ræða. Það hefur verið tekið fram við hvert tækifæri,” segir hann. „Við höfum reynt að fjalla um málið á opinn og heiðarlegan hátt og að setja hlutina í samhengi um leið og við miðlum upplýsingunum.”  

Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi vinna nú að opnun neyðarlínu fyrir fólk, sem óttast að það hafi smitast af svínaflensu, þar sem læknar hafa ekki undan því að svara beiðnum almennings um upplýsingar og læknisskoðun. Til stendur að lyfseðlar, vegna flensulyfja, verði afgreiddir um slíkar neyðarlínur í lok vikunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert