Tveir franskir ráðgjafar bráðabrigðastjórnarinnar í Sómalíu, sem rænt var af hóteli í Mogadishu á þriðjudag, eru nú sagðir vera í höndum uppreisnarsamtakanna al-Shabab. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Séu þeir í höndum al-Shabab er það mjög, mjög alvarlegt," segir ónefnur heimildarmaður innan sómölsku stjórnarinnar en al-Shabab eru samtök íslamista sem m.a. hafa staðið fyrir opinberum aftökum. „Þeir gætu drepið þá , sagt að þeir séu kristnir, ekki múslímar. Þeir gætu reynt að snúa aðstæðum sér í hag og sett fram pólitískar kröfur, til dæmis um að friðargæslulið Afríkusambandsins yfirgefi landið.”
Will Ross, fréttamaður BBC í Austur-Afríku segir að ólíkt öðrum samtökum uppreisnarmanna í Sómalíu sé ólíklegt að samtökin muni láta mennina lausa gegn lausnargjaldi.
Al-Shabab og önnur samtök íslamista Hizbul-Islam berjast nú gegn stjórnarher bráðabrigðastjórnarinnar í Sómalíu. Upphaflega voru mennirnir sagðir vera í höndum liðsmanna Hizbul-Islam en annar maðurinn er sagður hafa verið afhentur al Shabab í gær og hinn í dag.
Omar Abdirashid Ali Sharmarke, forsætisráðherra bráðabrigðastjórnarinnar í Sómalíu varaði liðsmenn Hizbul-Islam við því í gær að samtökin yrðu gerð ábyrg fyrir því verði mönnunum unnið mein.
Skeik Sharif Sheikh Ahmed sór embættiseið sem forseti Sómalíu í janúar á þessu ári eftir samningaviðræður við íslamista. Hann hét því að taka upp íslömsk Sharia lög í landinu en íslamistar saka hann þó um að vera undirlægju Vesturlanda og hafa heitið því að koma honum frá völdum.