Olmert gagnrýnir Bandaríkjastjórn

Palestínumenn vinna við byggingaframkvæmdir í hverfi gyðinga í nágrenni Jerúsalem
Palestínumenn vinna við byggingaframkvæmdir í hverfi gyðinga í nágrenni Jerúsalem Reuters

Ehud Olmert, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, segir þá ofuráherslu sem yfirvöld í Bandaríkjunum leggi á frystingu uppbyggingar byggða gyðinga á Vesturbakkanum standa í vegi fyrir endurnýjum friðarferlis Ísraela og Palestínumenna. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Olmert segir þetta í grein sem birt er í bandaríska blaðinu The Washington Post en í greininni fer hann yfir friðarumleitanir sínar og fyrirrennara síns Ariel Sharon.

Þar segir hann samband Ísraela við Bandaríkin vera þeirra mikilvægasta hergagn og staðhæfir að bæði honum og Sharon hafi tekist að styrkja það samband.

Nú ógni hins vegar deilur um frystingu landnemabyggða þessu sambandi auk þess sem þær standi í vegu fyrir bættum samskiptum Ísraela og  Palestínumanna og Ísraela og arabaríkjanna.

Olmert segir kröfur Bandaríkjastjórnar um algera frystingu uppbyggingar landnemabyggða vera óraunhæfar og tefja friðarferlið. Þá hvetur hann ráðamenn bæði í Ísrael og Bandaríkjunum til að fallast á þann skilning forvera sinna í embættum að frysting uppbyggingar landnemabyggða nái ekki til „eðlilegrar stækkunar þeirra landnemabyggða sem fyrir eru” þar sem slík uppbygging sé nauðsynleg til þess að íbúar þeirra geti lifað eðlilegu lifi þar til framtíð byggðanna verður ákveðin í friðarviðræðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert