Úrgangur sendur ólöglega til Brasilíu

Frá tískuvikunnni í Sao Paulo í Brasilíu
Frá tískuvikunnni í Sao Paulo í Brasilíu REUTERS

Mikil reiði ríkir í Brasilíu eftir að 64 gámar með rúmlega 1.400 tonnum af eiturúrgangi frá Bretlandi fundust í höfninni í Santos í nágrenni Sao Paulo og tveimur öðrum höfnum í Rio Grandedo Sul ríki í suðurhluta landsins. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Yfirvöld í Brasilíu segja úrganginn hafa verið fluttan ólöglega til landsins en m.a. er um að ræða batterí, sprautunálar, smokka, beyjur og sjúkrahúsúrgang. Þá segja brasilískir embættismenn yfirvöld þar í landi ekki ætla að sætta sig við það að Brasilía verði gerð að ruslahaug heimsins. 

Breska sendiráðið í landinu segir úrganginn ekki hafa verið fluttan til landsins með vitneskju breskra yfirvalda og að gripið verði til aðgerða vegna málsins.  

Það jók enn á reiði almennings í Brasilíu er greint var frá því að inni í einum gámnum hafi fundist poki með óhreinum leikföngum sem á hafi staðið, á portúgölsku, að þvo þyrfti leikföngin áður en þau væru gefin fátækum börnum í Brasilíu. 

Talsmenn þeirra fimm fyrirtækja sem gámarnir voru sendir til segja starfsmenn þeirra hafa verið blekkta og þeim sagt að um væri að ræða plast til endurvinnslu. 

Verið er að rannsaka aðkomu tveggja breskra fyrirtækja að málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert