Ellefu látnir í óveðri í Evrópu

Frá Jablonne v Podjestedi í Tékklandi
Frá Jablonne v Podjestedi í Tékklandi Reuters

Að minnsta kosti ellefu hafa látið lífið í óveðri í Evrópu um helgina. Flestir hafa látist á Ítalíu, þar af einn sjómaður sem alda hreif með sér þar sem hann stóð á bryggju í bænum La Spezia. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Þá létust 82 ára kona og 63 ára sonur hennar er aurskriða féll á hús þeirra. Þrír franskir fjallgöngumenn létu einnig lífið á Aostatal Alpasvæðinu er þeir hröpuðu eftir að hafa villst í mikilli þoku. Fjórði maðurinn í hópnum hrapaði einnig og er hann alvarlega slasaður.

Í Vorarlberg í Austurríki lést þýskur ellilífeyrisþegi er hann datt í mikilli rigningu og á Mont Blanc svæðinu létu þrír fjallgöngumenn frá Litháen lífið er einn þeirra rann til í 3.300 metra hæð og hreif hina með sér í fallinu. Þrír samferðamenn þeirra komust lífs af.

Einn lét einnig lífið og 52 slösuðust, þar af tveir lífshættulega, í bænum Trencin í Slóvakíu er tónleikatjald hrundi á mannfjölda í miklu roki.

Þriggja er einnig saknað í bænum Nachterstedt í Þýskalandi eftir að aurskriða sópaði burt heimilum þeirra í gær. 

Mikil flóð eru nú víða í Austurríki og Þýskalandi. Mest eru flóðin í borginni Graz í Austurríki og í suðvesturhluta Þýskalandis þar sem árnar Neckar og Doná flæða yfir bakka sína.

Flóð eru einnig á Bretlandi og var Meta-tónlistarhátíðinni í Middlesborough aflýst vegna vatnsveðurs. Í sumarleyfisbæjum í Norfolk hefur víða flætt yfir vegi og inn í kjallara húsa. Einnig hefur áin Wear flætt yfir bakka sína í bænum Durham og er vatnsyfirborð hennar fjórum metrum hærra en venjulega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert