Flensan lengir kreppuna

Mæðgur koma úr St Catherine's skólanum í norðvestur London. Stúlka …
Mæðgur koma úr St Catherine's skólanum í norðvestur London. Stúlka í skólanum dó af völdum H1N1 flensunnar. Reuters

Svínaflensa (H1N1) kann að auka enn á efnahagssamdráttinn í Bretlandi, að því er fram kemur í skoska blaðinu The Herald. Því er spáð að flensan geti valdið verðhjöðnun í haust og dregið úr landsframleiðslu um 5% þegar fólk hættir að fara í verslanir vegna ótta við smit.

Talið er að H1N1 flensan geti í versta falli orðið allt að 65 þúsund að aldurtila á Bretlandseyjum. Til þessa hafa 29 manns dáið af völdum svínaflensunnar í Bretlandi, þar af þrír í Skotlandi.

Í efnahagsspá Oxford Economics kemur m.a. fram að  þegar veikindin breiðast út muni fyrirtækin reyna að halda uppi framleiðni þrátt fyrir veikindafjarverur. Þeir sem ekki veikist muni lenda í vandræðum við að komast í vinnuna vegna þess að almenningssamgöngur muni truflast. 

Talið er að flensan muni skella á af fullum þunga í haust, á sama tíma og þess var vænst að efnahagslífið færi að rétta úr kútnum eftir fjármálakreppuna.  Hún muni valda auknu álagi á efnahagslífið og fjármálakerfið og ógna fyrirtækjum sem þegar standa höllum fæti.

Spá þessi tekur mið af reynslunni af fyrri farsóttum og reynslunni frá Asíu eftir Sars-pestina 2003. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert