Talsmaður al-Shabab samtaka íslamista í Sómalíu, segir að réttað verði yfir tveimur frönskum ráðgjöfum bráðabrigðastjórnarinnar í landinu, sem eru í haldi samtakanna, samkvæmt íslömskum Sharia lögum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Segir hann að mennirnir verði ákærðir fyrir njósnir og samsæri gegn íslam en að ekki hafi verið ákveðið hvenær mál þeirra verði tekið fyrir.
Mönnunum, sem hafa unnið að þjálfun stjórnarhers bráðabrigðastjórnarinnar, var rænt af hóteli þeirra í Mogadishu á þriðjudag og þeir síðan afhentir al-Shabab. Fréttaskýrendur segja mikla ástæðu til að óttast um öryggi þeirra eftir að þeir voru afhentir liðsmönnum samtakanna.
Sjeik Sharif Sheikh Ahmed, sem sór embættiseið sem forseti landsins í janúar, hét því þá að taka upp Sharia lög í landinu. Íslamistar hafa hins vegar sakað hann um að vera handbendi Vesturlanda og barist gegn yfirráðum bráðabrigðastjórnar hans.