Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa ráðlagt barnshafandi konum og foreldrum barna innan fimm ára aldurs að forðast margmenni og ónauðsynleg ferðalög til að draga úr hættu á svínaflensusmiti (H1N1). Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Áhyggjur barnshafandi kvenna í Bretlandi hafa aukist mjög eftir að greint var frá því að kona hafi látist úr svínaflensu skömmu eftir að hún fæddi barn sem einnig er alvarlega veikt. Annað barn innan sex mánaða aldurs lést einnig úr svínaflensu í Bretlandi í síðustu viku.
Yfirvöld ráðleggja einnig barnshafandi konum og foreldrum ungra barna að gæta fyllsta hreinlætis til að reyna að koma í veg fyrir smit. Þá hafa barnshafandi konur með flensueinkenni fengið lyfið Relenza, sem hefur minni áhrif á fóstrið en lyfið Tamiflu.
Talsmenn yfirvalda hafa hins vegar gagnrýnt samtökin National Childbirth Trust fyrir að hvetja fólk til að fresta barneignum vegna flensunnar og sakað þau um hræðsluáróður.
Á heimasíðu samtakanna stendur: „Heilbrigðisráðuneytið hefur bent á það að það geti verið skynsamlegt fyrir fólk sem hyggur á barneignir að íhuga að fresta því á meðan faraldurinn gengur yfir."
Steve Field, prófessor og formaður lýðheilsudeildar Royal College segir heilbrigðisyfirvöld vissulega hafa hvatt fólk til að skipuleggja barneignir af varfærni en að fólki hafi þó ekki beinlínis verið ráðlagt að fresta þeim.
„Þó þetta sé tæknilega rétt þá eru slíkar ráðleggingar algerlega óviðeigandi," segir hann. „Slíktýtir undir þá taugaveiklun og þann ótta sem virðist vera að gleypa þjóðina," segir hann.