Fujimori dæmdur fyrir spillingu

Alberto Fujimori
Alberto Fujimori Reuters

Fyrrum forseti Perú, Alberto Fujimori, var í dag dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi fyrir spillingu í starfi. Fujimori er þegar að afplána dóm fyrir mannréttindabrot. Fujimori hafði játað að hafa greitt Vladimiro Montesinos, helsta aðstoðarmanni sínum, fimmtán milljónir Bandaríkjadala í bónusa á meðan hann gegndi embætti forseta. Hann sagði hins vegar að ekkert glæpsamlegt hafi verið við greiðslurnar og tilkynnti strax eftir dómsuppkvaðninguna að hann myndi áfrýja dómnum þar sem hann væri ógildur.

Þetta er þriðji dómurinn sem kveðinn er upp yfir Fujimori sem var forseti Perú frá 1990-2000. Í apríl var hann dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir mannréttindabrot, spillingu og morð sem framin voru í valdatíð hans. Var hann dæmdur fyrir að bera ábyrgð á morðum á níu námsmönnum og kennara við La Cantuta-háskóla og á fimmtán mönnum í Barrios Altos, verkamannahverfi í Lima. Morðin voru framin af dauðasveitum hersins. Dómurinn markaði tímamót en þetta er í fyrsta sinn í sem réttað er yfir lýðræðislega kjörnum fulltrúa í rómönsku Ameríku í eigin heimalandi vegna mannréttindabrota.

Fujimori afplánar nú sex ára fangelsisdóm sem hann hlaut árið 2007 fyrir misbeitingu valds.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert