Ísrael heimilar landnemabyggðir

Reuters

Forsætisráðherra Ísraels hefur hunsað kröfur Bandaríkjanna um að stöðva byggingaframkvæmdir við landnemabyggðir í Austur-Jerúsalem. Þetta hefur valdið miklum og áköfum samningaviðræðum milli bandamannanna.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í gær að hann tæki ekki við skipunum þess efnis hvar gyðingar mættu búa og lagði áherslu á þá staðhæfingu að sameinuð Jerúsalem væri höfuðborg Ísraels en meirihluti alþjóðasamfélagsins er því ósammála.

„Við getum ekki samþykkt það sem staðreynd að gyðingar geti ekki búið og keypt eignir, hvar sem er í Jerúsalem,“ lýsti Netanyahu yfir og sagði vald Ísraels yfir allri borginni óumdeilt.

Ísraelskir embættismenn sögðu í gær að Michael Oren, sendiherra Ísraels í Washington, hefði verið kallaður á fund í utanríkisráðuneytinu og sagt að framkvæmdin sem á sér stað á umdeildu svæði borgarinnar skyldi stöðvuð. Framkvæmdin er fjármögnuð af bandarískum auðjöfri.

Neitun Ísraelsmanna dregur athygli að því hversu stirð tengslin eru nú milli bandamannanna: Bandaríkjamanna og Ísraelsmanna.

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem er í heimsókn á Indlandi, sagði í gær að stjórnvöld stæðu í miklum samningaviðræðum við Ísrael um landnemabyggðirnar.

Borgaryfirvöld í Jerúsalem samþykktu fyrr í þessum mánuði áætlun þess efnis að 20 íbúðir yrðu byggðar á svæðinu, sem og neðanjarðarbílastæði. Byggingarreiturinn er í palestínsku hverfi, Sheikh Jarrah, en landnemabyggðir eru þar óheimilar samkvæmt alþjóðalögum. Þær eru taldar standa í vegi fyrir friðarumræðum milli Ísraelsmanna og Palestínumanna.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert