Indónesíska lögreglan segir hryðjuverkahópinn Jemaah Islamiyah, JI, bera ábyrgð á sjálfsmorðsárásunum tveimur í höfuðborginni Jakarta í síðustu viku. Tvö lúxushótel urðu fyrir barðinu á hópnum og létu níu manns lífið.
Að auki slösuðust fimmtíu manns þegar sprengjurnar sprungu á hótelunum JW Marriott og Ritz-Carlton, síðastliðinn föstudag.
Talsmaður lögreglunnar sagði á fréttamannafundi í gær að ósprungin sprengja sem fannst á JW Marriott væri eins og þær sem notaðar hefðu verið á Bali árið 2002 og 2005 en í þeim létust meira en 250 manns. Það er fréttavefurinn Al Jazeera sem greinir frá þessu.
Sprengjan er sömuleiðis eins og sú sem fannst í árás lögreglunnar í síðustu viku á íslamskan heimarvistarskóla á Jövu. Greinlegt væri að sömu aðilar hefðu verið að verki í öllum tilvikum, JI hópurinn.
Tilræðismennirnir gistu á Marriott og þóttust vera gestir. Þeir gengu um þéttskipaða veitingasali og móttökur, með sprengjur í skjalatöskum.