Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Norður-Kórea eigi enga vini lengur, sem geti verndað þá gegn tilraunum alþjóðasamfélagsins að binda enda á kjarnorkutilraunir þeirra.
Clinton lét ummælin falla á ráðstefnu Asíuríkja, sem fram fer í Taílandi. Hún segir að það ríki víðtæk sátt um að Norður-Kórea megi ekki eignast kjarnorkuvopn.
Sendifulltrúi Norður-Kóreu á ráðstefnunni sagði að Norður-Kóreumenn myndu ekki taka þátt í sex ríkja viðræðum um kjarnorkumál landsins á nýjan leik.
Þá sagði talsmaður norður-kóreskra stjórnvalda í Pyongyang að Clinton væri „ekki gáfuð“.
Clinton segir að margir innan ASEAN, samtaka ríkja í Suðaustur-Asíu, hafi haft áhyggjur af „ögrandi hegðun“ Norður-Kóreumanna að undanförnu.