Lögreglan á Grænlandi skýrði frá því í dag að hún hefði fundið 118 kíló af hassi í danskri skútu. Er þetta mesti hassfundur í sögu Grænlands.
Hassið fannst í skútu sem lögreglan lagði hald á undan suðurströnd Grænlands fyrr í mánuðinum. Áhöfn skútunnar lenti í vandræðum vegna hafíss og þurfti að óska eftir aðstoð. Þegar lögreglumenn komu að skútunni vaknaði grunur um smyglið.
Alls fundust 118 kíló af hassi í skútunni, meðal annars í köfunartækjum. Lögreglan áætlar að götusöluverðmæti fíkniefnanna sé að minnsta kosti 60 milljónir danskra króna, sem svarar 1,4 milljörðum íslenskra, að því er fram kemur á fréttavef danska ríkisútvarpsins.