Blaðamenn voru pyntaðir

Jose Ramos-Horta, forseti Austur-Tímor, á frumsýningu myndarinnar Balibo.
Jose Ramos-Horta, forseti Austur-Tímor, á frumsýningu myndarinnar Balibo. MICK TSIKAS

For­seti Aust­ur-Tím­or, Jose Ramos-Horta, lýsti því yfir í dag að indó­nes­ísk­ar her­sveit­ir hefðu „pyntað og misþyrmt“ Bali­bo-fimm­menn­ing­ana - unga, er­lenda blaðamenn - sem voru myrt­ir í bæn­um Bali­bo í Aust­ur-Tím­or árið 1975. 

Ramos-Horta, sem er friðar­verðlauna­hafi Nó­bels, sagði frá þessu í Mel­bour­ne í dag þar sem hann var viðstadd­ur frum­sýn­ingu kvik­mynd­ar­inn­ar Bali­bo sem lýs­ir sögu fimm­menn­ing­anna. Þeir voru myrt­ir 16. októ­ber og þann 7. des­em­ber réðust Indó­nesíu­menn inn í landið.

Indó­nesíu­menn hafa sagt að blaðamenn­irn­ir hafi verið drepn­ir fyr­ir slysni en marg­ir hafa talið að þeir hafi verið myrt­ir til að koma í veg fyr­ir fjöl­miðlaum­fjöll­un um inn­rás­ina.

Blaðamenn­irn­ir unnu fyr­ir ástr­alska sjón­varps­stöð. Tveir þeirra voru Ástr­al­ar, tveir Bret­ar og einn Ný­sjá­lend­ing­ur.

Ramos-Horta sagðist hafa rann­sakað morðin stuttu eft­ir að þau áttu sér stað. Hann var á þeim tíma upp­reisn­ar­leiðtogi.

„Þeir voru ekki aðeins tekn­ir af lífi. Ein­hverj­ir þeirra voru pyntaðir hrotta­lega. Lík­in voru svo brennd.“

 Að sögn var einn morðingj­anna Mohammad Yun­us Yos­fiah, sem síðar varð ráðherra í rík­is­stjórn Indó­nes­íu.

Um 184.000 Aust­ur-Tím­or­ar létu lífið á 24 ára valdatíð Indó­nes­íu yfir land­inu. Hún endaði þegar Sam­einuðu þjóðirn­ar studdu sjálf­stæði Aust­ur-Tím­or með at­kvæðagreiðslu árið 1999. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert