Blaðamenn voru pyntaðir

Jose Ramos-Horta, forseti Austur-Tímor, á frumsýningu myndarinnar Balibo.
Jose Ramos-Horta, forseti Austur-Tímor, á frumsýningu myndarinnar Balibo. MICK TSIKAS

Forseti Austur-Tímor, Jose Ramos-Horta, lýsti því yfir í dag að indónesískar hersveitir hefðu „pyntað og misþyrmt“ Balibo-fimmmenningana - unga, erlenda blaðamenn - sem voru myrtir í bænum Balibo í Austur-Tímor árið 1975. 

Ramos-Horta, sem er friðarverðlaunahafi Nóbels, sagði frá þessu í Melbourne í dag þar sem hann var viðstaddur frumsýningu kvikmyndarinnar Balibo sem lýsir sögu fimmmenninganna. Þeir voru myrtir 16. október og þann 7. desember réðust Indónesíumenn inn í landið.

Indónesíumenn hafa sagt að blaðamennirnir hafi verið drepnir fyrir slysni en margir hafa talið að þeir hafi verið myrtir til að koma í veg fyrir fjölmiðlaumfjöllun um innrásina.

Blaðamennirnir unnu fyrir ástralska sjónvarpsstöð. Tveir þeirra voru Ástralar, tveir Bretar og einn Nýsjálendingur.

Ramos-Horta sagðist hafa rannsakað morðin stuttu eftir að þau áttu sér stað. Hann var á þeim tíma uppreisnarleiðtogi.

„Þeir voru ekki aðeins teknir af lífi. Einhverjir þeirra voru pyntaðir hrottalega. Líkin voru svo brennd.“

 Að sögn var einn morðingjanna Mohammad Yunus Yosfiah, sem síðar varð ráðherra í ríkisstjórn Indónesíu.

Um 184.000 Austur-Tímorar létu lífið á 24 ára valdatíð Indónesíu yfir landinu. Hún endaði þegar Sameinuðu þjóðirnar studdu sjálfstæði Austur-Tímor með atkvæðagreiðslu árið 1999. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka