Ófrísk bresk kona sem er alvarlega veik af svínaflensu hefur verið flutt á sænskt sjúkrahús fyrir sérstaka meðferð.
Konan sem er 26 ára gömul er frá Skotlandi. Hún þjáist af sjaldgæfum einkennum og var flogið til Stokkhólms þar sem engin rúm voru laus í Bretlandi fyrir þá meðferð sem hún þarfnaðist.
Konan var lögð inn á Crosshouse sjúkrahúsið í Kilmarnock í Austur Ayrshire í síðustu viku. Þar var hún sett í öndunarvél vegna sterkra viðbrigða við H1N1 vírusnum. Hún átti í miklum öndunarerfiðleikum.
Sérfræðingar við spítalann mæltu með því að konan hlyti sérstaka blóðmeðferð. Hún gengur út á það að blóðrás sjúklingsins er beint út úr líkamanum og er súrefni bætt við blóðið áður en það fer aftur inn í líkamann. Þessi meðferð er ný af nálinni og er beitt þegar lungu sjúklings starfa mjög illa jafnvel þótt sjúklingur sé í öndunarvél og fái hátt hlutfall súrefnis. Í Bretlandi eru fimm sjúkrarúm ætluð meðferðinni og eru þau í Leicester. Þau voru hins vegar öll upptekin og því var konan flutt til Stokkhólms.
Sérstakt lið sérfræðinga var sent frá Stokkhólmi og var svo flogið með sjúklinginn í nótt. Ástand konunnar var stöðugt þegar flogið var með hana en hún er þó í lífshættu.
Stjórnvöld skýrðu frá því í gær að nýr vefur sem ætlað er að hjálpa til við sjúkdómsgreiningu vegna svínaflensu hefði verið mun meira sóttur en gert var ráð fyrir. Stuttu eftir að hann var opnaður á fimmtudag voru heimsóknir um 2.600 á sekúndu. Hrundi vefurinn strax og hann var opnaður en stuttu síðar tókst að opna hann aftur.