Meira en fjörutíu manns, þar á meðal stjórnmálamenn, embættismenn og nokkrir rabbíar, hafa verið handteknir í viðamikilli aðgerð alríkislögreglunnar, FBI, í Bandaríkjunum.
Þrír bæjarstjórar frá New Jersey ríki og tveir ríkisþingmenn eru í haldi.
Einn maður er ásakaður um ólöglega verslun með nýru frá Ísrael.
Þrjú hundruð alríkislögreglumenn þustu inn á tugi staða í New Jersey og New York og var þetta liður í tíu ára rannsókn á peningaþvætti og spillingu.
Saksóknarar segja að handtökurnar séu þáttur af tvíhliða rannsókn.
Settur ríkissaksóknari, Ralp Marra, sagði við fréttamenn að búið væri að handtaka 29 vegna þeirrar hliðar málsins sem hann kallaði opinbera spillingu, þeirra á meðal væru stjórnmálamennirnir.
Hvað hina hliðina, meint alþjóðlegt peningaþvætti, varðaði sagði hann að fimmtán hefðu verið handteknir, þeirra á meðal rabbíar og samstarfsmenn þeirra.
Einn mannanna er ásakaður um að hafa verslað með nýru frá Ísrael í áratug. Þau voru notuð til líffæraaðgerða.
Því er haldið fram að „viðkvæmt fólk“ sé tilbúið að selja nýra úr sér fyrir tíu þúsund dali en þau eru síðan seld á um 160 þúsund dali.
Embættismenn innan lögreglunnar segja að rannsóknin hafi upphaflega beinst að samskiptaneti sem þeir segja að hafa þvegið tugi milljóna dala gegnum góðgerðasamtök, undir stjórn rabbía í New Jersey og New York.
Rannsóknin var svo víkkuð út í að taka til opinberrar spillingar tengdri uppsveiflu í byggingum í New Jersey.
Marra sagði að svo virtist sem allir hefðu viljað fá bita af kökunni. Spillingin hefði verið víðfeðm og náð djúpt. Fyrir hina grunuðu hefði hún verið lífsstíll.
Fréttaritari BBC sagði að peningaþvættið hefði líklega náð til Bandaríkjanna, Ísrael og Sviss.
Lögreglumaður sem hefur unnið að rannsókn málsins frá upphafi sagði spillinguna í New Jersey vera eina þá verstu, ef ekki þá allra verstu, í Bandaríkjunum. Hún væri orðin hluti af pólitískri menningu í fylkinu.
Annar lögreglumaður sagði:„Ef litið er á listann yfir þá sem við handtókum lítur hann út eins og listi yfir leiðtoga samfélagsins en því miður voru þeir ekki á stjórnarfundi þennan morgun, þeir voru í varðhaldsherbergjum FBI.“
Meira en 130 embættismenn í New Jersey hafa annað hvort játað á sig spillingu eða verið fundnir sekir um hana síðan 2001.