Forsætisráðherra Írak, Nuri al-Maliki, gaf í skyn í gær að bandarískar hersveitir myndu mögulega þurfa að dvelja lengur í heimalandi hans en til loka árs 2011. Samkvæmt samningi milli landanna er stefnt að því að Bandaríkjamenn verði farnir út landinu fyrir það tímamark.
„Samkvæmt efni samningsins eiga Bandaríkjamenn að vera farnir fyrir lok árs 2011,“ sagði forsætisráðherrann í ræðu sinni í Washington í gær, þar sem hann er í fjögurra daga heimsókn.
„Á hinn bóginn gætum við þurft að endurskoða þetta ef íraskar hersveitir þurfa enn stuðning og þjálfun á þeim tímapunkti.“
Ummæli al-Maliki koma nokkuð á óvart enda hafa stjórnvöld í báðum ríkjum lagt áherslu á það hingað til að tímasetningin, 31. desember árið 2011, væri fastákveðin.
Íraski leiðtoginn hefur gert 30. júní að þjóðhátíðardegi í Írak til að minnast dagsins sem Bandaríkjamenn fóru frá þéttbýlissvæðum landsins. Dagurinn markaði þáttaskil í tilraunum stjórnvalda í Írak til að fá vald sitt viðurkennt um landið allt.
Um 130.000 bandarískir hermenn eru í Írak þrátt fyrir að herinn hafi yfirgefið þéttbýlissvæði í landinu. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur lofað að kalla alla hermenn heim frá Írak fyrir ágúst 2010 og skilja aðeins eftir mannafla til að þjálfa íraska herinn og veita þeim þann stuðning sem þeir þurfa.