Obama vill veita pólitískt hæli gegn heimilisofbeldi

Undir stjórn Baracks Obama hefur komist skriður á hælismál kvenna …
Undir stjórn Baracks Obama hefur komist skriður á hælismál kvenna sem sæta ofbeldis. LARRY DOWNING

Ríkisstjórn Baracks Obama hefur ákveðið að veita pólitískt hæli til erlendra kvenna sem orðið hafa fyrir hörðu líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi sem þær geta ekki sloppið undan, þar sem það sé hluti af menningunni sem þær búi við.

Ákvörðunin var tekin í máli mexíkóskrar konu sem sætt hefur miklu ofbeldi, og er hún sögð binda endi á margra ára deilur um hvort viðurkenna eigi heimilisofbeldi sem gilda ástæðu fyrir því að veita hælum. Í málinu sem virðist nú ætla að verða prófsteinn hefur Heimavarnarráðuneytið ákvarðað að mexíkóska konan, sem er 42 ára gömul, geti hugsanlega átt rétt á því að hljóta pólitískt hæli. Réttlætingin er m.a. sú að kona óttast að verða myrt af eiginmanni sínum sem hefur hvað eftir annað nauðgað henni með byssu á lofti og reyndi m.a. að brenna hana lifandi þegar hann uppgötvaði að hún var ólétt.

Erfitt að færa sönnur á málin

Karen Musalo, lögfræðingur sem vinnur fyrir aðra konu í svipuðu máli, segir að ákvörðunin hafi mikið að segja og sé umbreyting í opinberri stefnu sem greiði leiðina fyrir líkamlega og kynferðislega misnotaðar konur að sækja sömu vernd og konum sem flýja umskurð kynfæra hefur verið boðin. 

„Það hefur verið svo mikill ágreiningur og sviptingar í þessu í mörg ár. Loksins opnast leiðin fyrir þessar konur að sækja sér vernd,“ hefur breska blaðið The Guardian eftir Musalo. Eftir sem áður þurfa þessar konur að yfirstíga margar hindranir áður en þær fá hæli, m.a. þær hversu erfitt er að sanna mál af þessu tagi.

„Konan verður að færa sönnur á það að í Mexíkó sé ofbeldi gegn konum útbreitt og að það sé skilningur samfélagsins að það sá ásættanlegt. Því næst verður hún að sanna að ríkisstjórn Mexíkó geti ekki veitt henni vernd og í ofanálag að þarf hún að sýna fram á að hún geti hvergi í Mexíkó verið öruggt gagnvart þeim sem misnotar hana.“

Konan sem um ræðir á samt góðar líkur á því að geta uppfyllt þessar kröfur. Eiginmaður hennar, sem hún hóf samband með á meðan hann kenndi henni í grunnskóla, þvingaði hana til kynlífs með afli og vopnum. Hann hefur nefbrotið hana einu sinni auk þess að kveikja í rúminu hennar á meðan hún svar. Þegar hún leitaði til lögreglu var henni vísað frá og sagt að þetta væri „einkamál“ hennar og mannsins hennar.

Þeir sem eru andsnúnir að konum í þessum aðstæðum verði veitt pólitískt hæli rökstyðja það m.a. verði til lagalegt fordæmi fyrir því muni flæða yfir Bandaríkin beiðnir um pólitískt hæli þar sem milljónir kvenna um allan heim búi við stöðugt ofbeldi og kúgun sem samfélagið í heimalandi þeirra líti framhjá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert