Síðasti skotgrafahermaðurinn látinn

Fyrri heimsstyrjöldin verður æ fjarlægari og þeim fækkar sem upplifðu hörmungar hennar á eigin skinni. Í morgun lést Harry Patch, síðasti eftirlifandi hermaður Bretlands sem barðist í skotgröfum heimsstyrjaldarinnar. Patch var jafnframt elsti maður Evrópu þegar hann lést, og þriðji elsti maður heims.

Harry var 111 ára að aldri en var skráður í herinn 18 ára gamall. Hann barðist í orrustunni um þorpið Passchendaele við Ypres í Belgíu, en tugir þúsunda breskra hermanna létu þar lífið á vígvellinum.  Með fráfalli Patch er aðeins einn eftirlifandi Breti sem barðist í heimsstyrjöldinni, en það er hinn 108 ára gamli Claude Choules sem gegndi herþjónustu í Konunglega sjóhernum. Fyrir aðeins viku síðan dó annar eftirlifandi hermaður, hinn 103 ára gamli Henry Allingham sem einnig barðist með sjóhernum.

Menn og hross drukknuðu í leðjunni

Skotgrafahernaður fyrr heimsstyrjaldar, sem Harry Patch upplifði, þykir ein  ömurlegasta birtingarmynd stríðs sem sést hefur og hefur verið líkt við helvíti á jörðu. Orrustan við Passchendaele stóð frá 31. júlí til 6. nóvember 1917 og var alræmd fyrir drullusvaðið sem hermenn hírðust í við stöðugar rigningar og var á köflum svo djúpt að hermenn og hestar drukknuðu í leðjunni. Þegar orrustunni lauk hafði víglínan færst um aðeins 8 kílómetra en yfir hálf milljón hermanna frá báðum hliðum féllu.  Sjálfur særðist Patch illa í september þegar þýsk sprengja sprakk yfir höfðum hans og þriggja náinna félaga hans, sem létu allir lífið.

„Ég veit að öll þjóðin mun sameinast í dag til að heiðra hann og minnast með stolti þeirrar kynslóðar sem barðist í fyrri heimsstyrjöldinni, “ sagði Gordon Brown þegar andlát Patch var tilkynnt í dag. „Hin göfuga kynslóð  hefur nú horfið okkur sjónum, en þau munu aldrei gleymast. Við segjum í dag með styrkari rómi en nokkru sinni, að við munum minnast þeirra.“

Ævisagnaritari Patch sagði hann hafa verið heillandi mann sem gaf mikið af sér. „Hann var sá síðasti af þessari kynslóð og áhrifamáttur þess er nánast yfirþyrmandi. Hann mundi enn eftir öllum þeim sem dóu og þjáðust og í hvert skipti sem hann var heiðraður vissi hann að það var fyrir hönd allra þeirra sem börðust.“

Harry Patch barðist í hinni blóðugu orrustu við Passchendaele í …
Harry Patch barðist í hinni blóðugu orrustu við Passchendaele í fyrri heimsstyrjöld.
Hermenn við Ypres þann 29. október 1917.
Hermenn við Ypres þann 29. október 1917. Frank Hurley
Harry Patch árið 2008 ásamt Henry Allingham og Bill Stone, …
Harry Patch árið 2008 ásamt Henry Allingham og Bill Stone, öðrum eftirlifendum stríðsins sem einnig eru látnir. ALESSIA PIERDOMENICO
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka