Darling varar við vaxtaokri

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands.
Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands. Reuters

Alastair Darling, fjármálaráðherra Bretlands óttast að breskir bankar hafi hækkað útlánavexti óhóflega að undanförnu, þrátt fyrir að stýrivextir í Bretlandi hafi lækkað og séu nú í sögulegu lágmarki. Dæmi eru um að útlánavextir séu nú  allt að fjórum sinnum hærri en þeir voru fyri rfáum mánuðum.

Darling hefur kallað bankastjóra til fundar í fyrramálið. Hann hyggst spyrja þá hverjir raunverulegir útlánavextir til lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru. Darling segist áhyggjufullur yfir vaxtastiginu og að það kunni að vera óhóflega hátt.

Darling segir vexti hafa hækkað þrátt fyrir að stýrivextir séu nú aðeins 0,5% og hafi í raun aldrei verið lægri.

Darling segir í samtali við BBC að bankarnir hafi skyldum að gegna og það hafi ekki verið af góðmennskunni einni saman, sem breska ríkið kom þarlendum fjármálafyrirtækjum til hjálpar í kreppunni. Þeir verði einfaldlega að endurskoða stefnu sína, halda hjólunum gangandi og taka mið af því ástandi sem ríkir í bresku efnahagslífi.

Fjöldi breskra fjármálastofnana þurfti á ríkisaðstoð að halda þegar kreppan skall á. Þeirra á meðal eru Lloyds, sem m.a. á Halifax og Bank of Scotland, Royal Bank of Scotland (RBS), sem m.a. á NatWest, og Northern Rock.

Yfirlýsingar Darling um féllu eftir að vefsíðan Moneyfacts greindi frá því að bankar hefðu nær fjórfaldað útlánavexti til einstaklinga á undanförnum mánuðum.

Angela Knight, framkvæmdastjóri samtaka breskra fjármálafyrirtækja segir í samtali við BBC að breskir bankar þurfi að greiða gott betur en 0,5% vegna fjármögnunar aukinna útlána. Ekki sé um annað að ræða en að velta þeim kostnaði yfir á lántakendur.

Útlán til smárra og meðalstórra fyrirtæja hafa aukist verulega að undanförnu en fyrirtækin kvarta undan fjármagnskostnaði. Stephen Alambritis, talsmaður samtaka smærri fyrirtækja fagnaði því að Alastair Darling ætli að taka bankastjórana á teppið.

„Það er gríðarlega mikilvægt að Darling sjái til þess að bankarnir láni okkur áfram á sanngjörnum kjörum,“ segir Alambritis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka