Indverjar sendu í dag af stað sinn fyrsta kjarnorkukafbát að sögn þarlendra yfirvalda, og undirstrika þar með vaxandi hernaðarstyrk þjóðarinnar. Forsætisráðherrann Manmohan Singh sagði það „sögulegan áfanga í varnarstigi þjóðarinnar“ þegar hinn 6.000 tonna kafbátur var vígður í borginni Visakhapatnam í dag.
Báturinn er sá fyrsti af fimm sem til stendur að taka í notkun. Hann er knúinn áfram af 85 mw kjarnakljúfi og kemst á 44 kílómetra hraða á klukkustund (24 hnútar) neðansjávar að sögn indverskra yfirvalda. Báturinn er vopnaður tundurskeytum mannaður 95 manna áhöfn.
„Við höfum engar árásargjarnar fyrirætlanir né höfum við í huga að ógna einum né neinum,“ hefur AFP eftir forsætisráðherranum Singh. Indland hefur með þessu skrefi slegist í hópinn með Kína, Frakklandi, Bandaríkjunum, Bretlandi og Rússlandi, en þetta eru þær þjóðir sem búa yfir kjarnorkuknúnum kafbátum.