Bændur í austurhluta Indlands hafa nú margir hverjir beðið ógiftar dætur sínar um að plægja skrælnaða akrana naktar, í tilraun til að gera veðurguðina vandræðalega og kalla þannig eftir langþráðri rigningu.
Þetta kemur fram á Pakistanska fréttavefnum Dawn. Að sögn vitna plægja stúlkur í Bihar nú akrana naktar og syngja um leið aldagömul lög eftir sólsetur til að ögra guðunum. Eldri konur í þorpunum hjálpi stúlkunum við verkið.
„Þeir [þorpsbúar] trúa því að með þessu verði veðurguðirnir verulega vandræðalegir og muni því í staðinn gefa þeim góða uppskeru með því að senda til þeirra regn,“ er haft eftir Upendra Kumar, embætismanni í þorpsráðinu.
„Þorpsbúar hafa mikla trú á þessum sið og hafa heitið því að halda honum til streitu þar til það kemur steypiregn.“ Bank Bazaar þorpið er heldur afskekkt, á svæði þar sem menningararfurinn er lifandi. Íbúar eru þar algjörlega háðir árstíðabundnu regni, sem hefur getið af sér margskonar siðvenjur og athafnir í tengslum við regnið.