Sarah Palin lætur í dag af embætti sem ríkisstjóri Alaska og lætur það eftir til kollega síns Sean Parnell. Af því tilefni var í gær haldin grillveisla til heiðurs henni í Anchorage í Alaska, þar sem stuðningsmenn hennar flykktust að til að fylgjast með og hvetja hana til dáða.
Samkvæm CNN útdeildu Palin og Parnell grilluðum hamborgurum og pylsum í veislunni en fjölmiðlafólki og almenningi var haldið í hæfilegri fjarlægð af lífvörðum. Stuðningsmenn hennar létu þó í sér heyra, margir héldu á skiltum þar sem stóð m.a. „Palin þú ert jafnfrábær og Alaska,“ og „Palin árið 2012“ til að hvetja hana í forsetaframboð við næstu kosningar.
Nýleg könnun sem gerð var á landsvísu í Bandaríkjunum og kynnt á föstudag gefur til kynna að meirihluti Bandaríkjamanna hafi neikvætt álit á ríkisstjóranum fráfarandi. Aðrar kannanir hafa hinsvegar sýnt að hún njóti enn mikils stuðnings innan Repúblikanaflokksins, þar sem sjö af hverjum tíu segjast hafa hana í miklum metum.
Afsögn Söruh Palin fyrr í sumar þótti koma mjög á óvart og eru margir sannfærðir um að hún ætli sér með þessu meiri tíma til að undirbúa forsetaframboð, en sjálf hefur hún ekki gefið það til kynna.