Bretar hvattir til að halda ró sinni

Reuters

Andy Burnham, heilbrigðisráðherra Bretlands, hefur ítrekað fyrri tilmæli sín um að fólk haldi ró sinni þrátt fyrir svínaflensufaraldurinn sem nú gengur yfir landið. Segir hann óþarfan ótta fólks, sem ekki sé í áhættuhópum, gera heilbrigðisstarfsmönnum erfiðar aðstæður enn erfiðari. Þetta kemur fram á fréttavef Sky. 

„Það er mjög mikilvægt að allir horfi á hlutina í samhengi. Í langlestum tilfellum er um mild einkenni að ræða sem fólk jafnar sig tiltölulega fljótt á,” segir hann. „Ef fólk er gert of hrætt þá gerir það heilbrigðisstarfsfólki, sem þegar er undir miklu álagi, enn erfiðara fyrir. Fólk getur treyst því að við höfum fyrir löngu búið okkur undir faraldur.”

Með ummælum sínum vísar ráðherrann m.a. til virta sérfræðinga á sviði heilbrigðismála sem hafa lýst áhyggjum af því að breska heilbrigðiskerfið geti ekki sinnt öllum þeim sem kunni að þurfa á læknisaðstoð að halda vegna svínaflensufaraldursins.  

Þá hefur það vakið ótta í Bretlandi er greint var frá því að 26 ára barnshafandi kona hafi verið send þaðan til læknismeðferðar í Svíþjóð þar sem ekki var laust rúm fyrir hana á viðeigandi deild í Bretlandi.

Burnham segir nýja símaþjónustu þar sem fólk getur fengið ávísanir á flensulyf, hins vegar hafa reynst vel en þegar hafa 58.000 einstaklingar verið sjúkdómsgreindir í gegnum slíka þjónustu og um 5.000 þeirra fengið ávísum á flensulyf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert