David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, hefur hvatt til breytinga á hernaðarstefnu Breta í Afganistan og m.a. hvatt til þess að aukin áhersla verði lögð á samnigaviðræður við hófsamari leiðtoga innan talibanahreyfingarinnar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Miliband sagði að stuðla verði að breiðri samstöðu ólíkra fylkinga í landinu til að koma á stöðugleika til framtíðar og að talibanar verði að eiga aðild að slíkri samstöðu.
Hann sagði þó nauðsynlegt að gera greinarmun á harðlínumönnum innan talibanahreyfingarinnar, sem nauðsunlegt sé að berjast gegn og öðrum hópum sem hugsanlega sé hægt að semja við með það að markmiði að gera þá að virkum þátttakendum í lýðræði landsins.
„Þeir Afganar verða að fá tækifæri til að velja aðra leið,” sagði hann. „Til lengri tíma litið þýðir þetta pólitískt samkomulag innan Afganistans, þar sem skilið verður á milli þeirra sem vilja að íslömsk lög gildi á ákvæðnum svæðum og þeirra sem vilja ofbeldisfullt heilagt stríð á alþjóðavettvangi.”
Miliband sagði einnig að þótt mannfall hefði verið mikið í herliði Breta í Afganistan að undanförnu hafi hernaðurinn einnig skilað mikilvægum árangri.
Mannfall í röðum breska hermanna í Afganistans hefur aukist mjög á undanförnum mánuðum og fleiri breskir og bandarískir hermenn hafa nú fallið í landinu það sem af er þessum mánuði en í nokkrum öðrum mánuði frá innrásinni í Afganistan árið 2001.