Kanadísk stjórnvöld ætla að leita til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, fyrir hönd selveiðimanna en Evrópusambandið hefur lagt bann við innflutningi á selaafurðum. Viðskiptaráðherra Kanada, Stockwell Day, segist afar ósáttur við ákvörðun ESB enda telji kanadísk stjórnvöld að ákvörðun ESB brjóti gegn reglum WTO.
Hann segir að veiðarnar fylgi öllum reglum og að um vísindaveiðar sé að ræða. Samþykkt var á fundi utanríkisráðherra ESB að leggja bann við innflutningi á selaafurðum frá Kanada. Þetta þýðir að bannað er að selja vörurnar í öllum 27 ríkjum ESB. Þrír utanríkisráðherrar, Danmerkur, Rúmeníu og Austurríkis, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna en aðrir ráðherrar greiddu atkvæði með banninu.