Barack Obama, Bandaríkjaforseti, kallaði í dag eftir umfangsmikilli samvinnu Bandaríkjanna og Kína og sagði samband ríkjanna ákaflega mikilvægt. Æðstu embættismenn í Bandaríkjunum og Kína eiga nú fundi í Washington um efnahagsleg og pólitísk málefni.
„Samband Bandaríkjanna og Kína mun móta 21. öldina. Sú staðreynd verður að styrkja samband okkar. Þá ábyrgð verðum við að bera,“ sagði bandaríski forsetinn.
Forseti Kína, Hu Jintao, sendi skilaboð á fundinn og sagði að ríkin ættu að leita eftir „jákvæðu, uppbyggilegu og umfangsmiklu samstarfi“. Búist er við að Obama heimsæki Kína í ár. Hann hefur leitast við að bæta samskiptin við kínversk stjórnvöld enda er Kína í dag stærsti lánadrottinn Bandaríkjamanna.
Varaforsætisráðherra Kína, Wang Qishan, og fulltrúi úr ríkisráði Kínverja, Dai Bingguo, fara fyrir kínversku sendinefndinni í Washington. Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Hillary Clinton, utanríkisráðherra, fara fyrir þeirri bandarísku.
„Kínverjar og Bandaríkjamenn eru tvær leiðandi þjóðir og í krafti samstarfs síns geta þær ekki aðeins gagnast borgurum sínum heldur alþjóðlega hagkerfinu í heild sinni,“ sagði Geithner í dag.
Clinton og Obama hétu að líta ekki á Kínverja sem andstæðinga en viðurkenndu jafnframt skoðanamun milli þjóðanna, sérstaklega hvað mannréttindi varðar.
Obama sagði að Bandaríkin bæru virðingu fyrir fornri menningu Kínverja en bætti við. „Við trúum jafnframt það verði að virða og verja menningu fólks og trúarbrögð og að allir eigi að hafa rétt á því að tjá hug sinn.“