Maður lést í skógareldi á Spáni í dag. Slökkviliðsmenn fundu lík mannsins síðdegis í húsi í bænum Arenas de San Pedro, um 120 kílómetra vestan við Madríd.
Yfirvöld í bænum segja að konu sé saknað. Eldarnir kviknuðu á þremur stöðum samtímis og segja yfirvöld að það bendi ótvírætt til að um íkveikju sé að ræða.
Maðurinn sem lést í dag, er fyrsti almenni borgarinn sem ferst í skógareldunum sem geisað hafa á Spáni að undanförnu en sex spænskir slökkviliðsmenn létu lífið í síðustu viku í baráttu við eldana.
Um 300 hektarar lands hafa brunnið í nágrenni Arenas de San Pedro. Um 100 slökkviliðsmenn berjast við eldana. Þá eru 15 þyrlur og sjö flugvélar notaðar við slökkvistarfið.
Kapp er lagt á að tryggja öryggi íbúa svæðisins og hefur fólki verið gert að yfirgefa híbýli sín. Flytja þurfti munka burt úr nálægu klaustri og um 40 börn í sumarbúðum á svæðinu voru flutt burt.
Tugþúsundir hektara lands hafa eyðilagst í skógareldum í S-Evrópu síðustu daga og slökkviliðsmenn vinna allan sólarhringinn við slökkvistarf. Á Spáni hafa yfir 20 þúsund hektarar lands brunnið síðustu sólarhringa.