Breska þingið hefur sett nýjar reglur sem gera þingmönnum kleift að fá allt 9.000 pund, sem svarar 1,8 milljónum króna, á ári vegna húsnæðiskostnaðar án þess að leggja fram kvittanir. Líklegt þykir að nýju reglurnar veki á ný reiði í garð breskra þingmanna sem höfðu sætt harðri gagnrýni fyrir að misnota reglur um endurgreiðslur vegna húsnæðiskostnaðar.
Samkvæmt nýju reglunum geta þingmenn fengið 25 pund á sólarhring, eða allt að 9.125 pund á ári, án þess að leggja fram kvittanir. Þessar greiðslur verða til viðbótar öðrum greiðslum sem þingmenn geta fengið gegn því að sýna kvittanir, meðal annars endurgreiðslum vegna vaxtakostnaðar, leigu, fasteignaskatta, rafmagns- og kyndingarkostnaðar.
Breska dagblaðið The Daily Telegraph segir að þingnefnd hafi samþykkt nýju reglurnar án umræðu á þinginu eða án þess að skýra frá þeim opinberlega skömmu fyrir sumarhlé þingsins.