Stuðningur við breska Verkamannaflokkinn dvínar enn, ef marka má nýja skoðanakönnun sem gerð var fyrir Independent. Fylgi Verkamannaflokksins mælist nú 24%. Á sama tíma eykst fylgi breska Íhaldsflokksins. Það mælist nú 42%, hefur aukist um 6 prósentustig frá könnun fyrri mánaðar.
Könnunin er enn eitt áfallið sem dynur á Gordon Brown, leiðtoga Verkamannaflokksins. Þingkosningar fara fram í Bretlandi um mitt næsta ár og David Cameron og Íhaldsflokkurinn styrkja stöðu sína sífellt á sama tíma og fylgið reytist af Gordon Brown og Verkamannaflokknum.
Brown hefur átt erfiða pólitíska daga að undanförnu og hvert áfallið á fætur öðru hefur dunið yfir hann. Raddir um að Brown víki til hliðar og Peter Mandelson taki við, gerast sífellt háværari. Flokksmenn telja litla von til þess að Verkamannaflokkurinn, sem hefur verið við völd frá árinu 1997, nái viðunandi útkomu í kosningum á næsta ári undir stjórn Browns.
Hernaður Breta í Afganistan hefur verið mjög gagnrýndur og telja andstæðingar hernaðarins að breskum lífum sé kastað á glæ í Afganistan. Fleiri breskir hermenn hafa nú fallið í átökum í Afganistan en í Írak frá upphafi Íraksstríðsins vorið 2003. Alls hafa 184 breskir hermenn látið lífið í Afganistan frá því að stjórn talibana var steypt af stóli haustið 2001.
Upplýsingar um kostnaðargreiðslur til breskra þingmanna þykja mikið hneykslismál og upplýst var að sjálfur Grodon Brown varþátttakandi í hneykslinu. Hans fyrstu viðbrögð voru að krefjast rannsóknar á því hvernig fjölmiðlar hefðu komist yfir upplýsingarnar, sem ekki eiga að vera aðgengilegar almenningi.
Könnun Independent var gerð dagana 24. til 26. júlí. Hringt var í rúmlega 1.000 manns.