Barack Obama, Bandaríkjaforseti, bauð varaforsetanum Joe Biden og þeim Henry Louis Gates Jr., prófessor við Harvard og James Crowley aðstoðarvarðstjóra upp á bjór í garðinum við Hvíta húsið rétt í þessu. Með fundinum vonast Obama til að sætta mennina eftir að Crowley handtók prófessorinn er hann reyndi að komast inn á heimili sitt.
Talsmaður forsetans sagði að Obama vonaðist til að fundurinn yrði til að koma af stað samræðum. Forsetinn myndi ekki reyna að kryfja hvað fór fram þegar Gates var handtekinn og að ekki yrði gefin út yfirlýsing að fundinum loknum.
Gates, sem er virtu háskólaprófessor var handtekinn fyrr í mánuðinum og sakaður um óviðurkvæmilega hegðun eftir að lögreglan brást við tilkynningu frá nágranna um að blökkumenn væru að brjótast inn á heimili hans í Boston. Gates, sem er blökkumaður var þá að koma frá útlöndum og var að reyna að opna útidyrahurðina, sem hafði þrútnað í falsinum, ásamt bílstjóra sínum.
Handtakan hrinti af stað deilum um starfshætti lögreglunnar og kynþáttafordóma en Gates sakaði lögregluna um að hafa handtekið sig og grunað um innbrot þar sem hann væri blökkumaður.
Skömmu eftir handtökuna sagði Barack Obama í fjölmiðlum að lögreglan hefði hagað sér „kjánalega“ og var hann harðlega gagnrýndur fyrir þau orð.