Sjórán við strendur Svíþjóðar

Óvenjulegt er að sjóræningjar stundi iðju sína á Eystrasalti.
Óvenjulegt er að sjóræningjar stundi iðju sína á Eystrasalti. Reuters

Finnska flutningaskipinu Arctic Sea var rænt á Eystrasalti í síðustu viku er tíu hettuklæddir og enskumælandi menn fóru um borð um miðja nótt og héldu áhöfninni fanginni í tólf klukkustundir.

Skipið var á leið frá Finnlandi til Alsír með farm af timbri er mennirnir sem sögðust vera löggæslumenn í leit að fíkniefnum. Samkvæmt Dagens Nyheter töluðu mennirnir ensku og ferðuðust á stórum slöngubát. Þeir bundu áhöfnina á höndum og fótum og gerðu leit um borð í skipinu sem stóð í 12 tíma.

Að sögn áhafnarinnar var engu verðmætu stolið og engin alvarleg meiðsl urðu á mönnum þó að nokkrir hafi hlotið marbletti við stympingar og einn maður missti tönn í átökum við sjóræningjana.

Sjóránið var framið í sænskri landhelgi en sænsk yfirvöld segja að útilokað sé að löggæslusveitir þeirra hafi verið að verki.

Áhöfnin ákvað að halda för sinni til Alsír áfram og því bárust fregnir af hinu óvenjulega sjóráni seint til sænskra fjölmiðla.

Áhöfnin um borð í Arctic Sea er rússnesk og því var haft samband við rússneska sendiráðið í Helsinki sem síðan hafði samband við rússneska sendiráðið í Svíþjóð vegna málsins.

Ingemar Isaksson hjá sænsku rannsóknarlögreglunni segist aldrei fyrr hafa heyrt af slíku máli í sænskir landhelgi en Dagens Nyheter hefur eftir honum að samkvæmt lýsingu á atburðunum gætu mennirnir vel hafa verið að leita að fíkniefnum.

Ekki kemur fram í fréttinni hvar sjóránið var framið en sænska lögreglan hefur beðið fólk sem kynni að hafa upplýsingar um grunsamlegar mannaferði í grennd við bæði Öland og Gotland í lok síðustu viku að hafa samband.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert