Breskur maður, Gary McKinnon, sem er sakaður um að hafa brotist inn í tölvur bandaríska hersins og Geimferðastofnunar Bandaríkjanna (NASA) mun verða framseldur til Bandaríkjanna þar sem réttað verður í máli hans.
McKinnon sem er einhverfur gæti þurft að eyða því sem hann á eftir ólifað í bandarísku fangelsi en hann „hakkaði" sig inn í 97 mismunandi tölvukerfi á árunum 2001 og 2002 í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana í New York.
Hæstiréttur Bretlands hefur úrskurðað að hann skuli framseldur og að ekki verði réttað yfir manninum í Bretlandi.
Samkvæmt AFP fréttastofunni segist McKinnon einungis hafa verið á höttunum eftir sönnunum fyrir tilvist geimvera er hann braust inn í tölvukerfi bandaríska sjóhersins og NASA.
Lögfræðingar hans telja að hann ætti ekki að verða framseldur sökum þess að hann er með Asperger-heilkennið sem er tegund af einhverfu og að fangelsisdómur gæti riðið honum að fullu. Þeir telja að auðveldlega væri hægt að rétta í máli hans á Bretlandi þar sem hann myndi ekki eiga jafn stranga refsingu í vændum.