Yfir 100 manns hafa látið lífið í umferðarslysum í Rússlandi undanfarna viku. Að sögn innanríkisráðherra Rússlands má rekja þessa slysaöldu til glæpsamlegs gáleysis ökumanna og slæmrar umferðarmenningar í landinu.
Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Rashid Nurgaliev, innanríkisráðherra, að vegakerfið í Rússlandi sé ekki upp á marga fiska en bílstjórar séu oft að tala í síma undir stýri eða aki drukknir.
Yfir 10 þúsund manns hafa látið lífið í umferðarslysum í Rússlandi það sem af er árinu. Í síðustu viku ók drukkinn ökumaður í Perm á þungaða konu og barn hennar á bílastæði og létust þau bæði. Þá valt rúta í Novosibrisk í síðustu viku með þeim afleiðingum að 8 farþegar létu lífið og 30 slösuðust. Lögregla rannsakar hvort bílstjórinn hafi verið sofandi eð að tala í farsíma.
Þá lenti rúta á tankbíl í Rostov með þeim afleiðingum að 21 lét lífið.
Rússnesk stjórnvöld hafa reynt að bregðast við þessu ástandi með því að fjölga í umferðarlögreglu og auka völd hennar. En Nurgaliev viðurkenndi í samtali við BBC, að flestir rússneskir ökumenn teldu sig geta brotið umferðarlögin og komist upp með það.